Tuesday, December 27, 2005


systir mín segir að hún sé skrímsli sem gott sé að elska, að hún búi í helli sem notalegt sé að vera í, að ástin hennar sé prinsessa, að prinsessan sé ekki fangi skrímslisins en að skrímslið sé fangi afþví það sé skrímsli, að öll skrímsli séu fangar, það sé ekki beinlínis auðvelt fyrir skrímsli að labba eftir götu með sitt langa skott og sinn stóra munn sem allt í einu spúi eldi, það sé erfitt að hafa stjórn á eldinum en hún sé þá bara meira inní sínum helli, að horfa á eldinn sem hún kveiki stundum uppí, og á prinsessuna dansa, og skuggana af dansi prinsessunnar, skrímslið sofni við flöktið í þeim sem eru svo svæfandi fyrir augnlokin, skrímsli eru með þung augnlok sem erfitt sé að halda opnum, skrímslið hún systir mín, ef hún fer í kringluna í dag mun kannski kringlan brotna undan þunga hennar, ef hún fer niður laugaveginn mölvast nokkur hús, svo hún heldur sér bara inni þótt hún sé svöng og dreymi um að steikja fisk á teini á eldinum sínum, fiskamatur hefur góð áhrif á skrímsli, þau róast og eru ekki nærri því eins uppivöðslusöm á eftir, skrímslið hún systir mín, þegar við vorum litlar var ég meira skrímsli en hún ef ég á að segja, alveg einsog er en nú er hún einhverra hluta vegna orðin meira skrímsli en ég, þetta er víst eitthvað sálfræðilegt atriði með systur, skrímslasystur sem skiptast á um að vera meira skrímsli en hin, svo veit ég ekki meir





1 comment:

Anonymous said...

ég elska þig skrímsli

litla prinsessan