Monday, November 21, 2005

action



ég er búin að jafna mig eftir helgina. mamma og systir mín voru með óþægilegar athugasemdir við mig en þá var ég líka svo viðkvæm og sé núna að kímnigáfa þeirra var á minn kostnað. þær halda að lífið sé brandari. en þær fylgjast grannt með litlu systur og dóttur.





ég saup seyðið af föstudagskvöldinu alla helgina því ég var þunn, bæði á laugardag og sunnudag, en ég drakk nokkra bjóra í afmælinu og fór svo á rex með vinkonu minni og gekk svo heim, undir stjörnuprýddum himni, um nóttina, það var svoldið draugalegt að ganga heim þessa nótt, systir mín keyrði mig svo í gær að ná í bílinn sem var búin að vera þarna síðan á föstudagskvöldið, systir mín var ansi stælótt í bílnum, og stuttur í henni fjúsorinn - nú verð ég að vinna mikið á næstu dögum






Saturday, November 19, 2005

- frhld - lördag middag -

...


það var einhver að segja að þegar fólk hittist kona og kall gagnkynhneigð þá séu þau til í strax sem ókunnugt fólk að eiga saman nótt eða kvöldstund og samfagna hvort öðru án landamæra án hlýfðarbúnaðs án kynsjúkdóma- og getnaðarvarna, en hver manneskja ber ábyrgð á sjálfri sér og getur ekki farið að saka hina um eitthvað 9 mánuðum seinna (eða 6 ef um t.d. hiv-smit sé að ræða), ókey, lífið er villt en það er líka stillt, og ég sem starfskona í heilbrigðisgeiranum veit hvað við erum viðkvæm og berskjölduð og að aðgát skal höfð í nærveru sálar og aðgát skal höfð í nærveru við sjálfan sig, þannig að þegar kona og kall hittast - sem systir mín vill meina að geti ekki verið á jafninga basis, en burtu með rövlið í henni for a sec - framandi fólk, í fyrsta sinn að hittast og kyssast - þá er betra og skynsamt að brúa bilið á milli hvors annars (það er alltaf bil á milli, samruni er hending) með smokknum - þetta segi ég sem starfskona í heilbrigðisgeiranum og líka sem margt margt fleira - bara núna í þessum orðum, heyri ég í sjúkrabíl... eða löggu... hætturnar, hætturnar, olræt - hér er meira um þetta sem mig langar tilað tala um

...

og þetta eru engin feimnismál (eða jú)

...

lördag morgen



það er gott veður í dag, ég er meira fyrir gott veður en vont, ég þoli ekki snjó, frá því ég var lítil, ekkert fyrir sleðaveður og snjókalla og kellingar

en afþví ég var að tala við systur mína í gærkvöldi
- á leiðinni var ég á bílnum í hafnarfjörð úr partýi
a í partý b -
um öruggt kynlíf og kynsjúkdóma,
hún veit margt um þetta tvennt, gamli vitringurinn stóra sys,
þá bendi ég á þessa síðu til frekari útskýringa

því við sem erum ekki fædd í gær erum stundum fædd í gær

og einsog systir mín segir:

hver einstaklingur

karlkyns/kvenkyns

er jómfrú alla ævi

hm, þrátt fyrir svartsýnina er alltaf einhverja smá bjartsýni að finna í systu















Friday, November 18, 2005

mynd af jörðinni okkar í bókabúð



systir mín og vinkonur hennar segja að konur í heimi vorum séu í sömu stöðu og fyrir 100 árum nema að vera sumar og margar kannski í okkar heimshluta með meiri peninga í vasanum, en leikreglurnar séu þær sömu og þær hafi karlmenn smíðað, og hvergi séu í gildi aðrar leikreglur en þeirra, þess vegna segja þær, að konur sem þurfi að díla við karlmenn á atvinnulegum basis og tilfinningalegum basis, geti aldrei treyst þeim fyrir sjálfstæði sínu, einlægnlega, og að einlægni sé ekki til á milli kynjanna á meðan staða konunnar er þessi, - algjörlega undir karlmönnum um allt allt allt - , þær eru harðar á þessu, mjög harðar á þessu, og svartsýnar og lýst ekkert á blikuna, þetta frelsi sem talað er um, sé frelsi tilað eyða peningunum, en reyndar sé mjög takmarkað sem hægt er að gera við peningana: fara útí búð og kaupa geislaspilara... fara útí búð og kaupa hárblásara... frelsið felist í dálitlu búðarrápi á kvöldin og um helgar, utan vinnutímans, annað sé það ekki


fuck the system sagði ég er ég var unglingur og kannski ég segi það enn



föstudagskvöld

mikið að gera, kvöldverður með nefnd sem ég er í, og afmælisveisla


jólatré í bókabúð



varúð: dótabúð í búningi bókabúðar

í þessari bókabúð þarsem sæta myndin var tekin fást fáar bækur en mikið af dóti sem gaman er að skoða og fingurnir mínir elska að leika sér við en ég veit ekki, kannski heitir iða ekki bókabúð, kannski heitir hún Gjafavöruverslun, því ég leitaði í bókahillunum og fann fátt af bókum sem skrifaðar hafa verið á þessu landi síðustu ár, kannski finnst þessari bókabúð leiðinlegt að vera bókabúð og skemmtilegra að vera dótabúð og vill ekki vera bókabúð og kannski var hún aldrei bókabúð in the first place og ég misskildi eitthvað í millitíðinni, en ef fólk leitar að bókum ætti það að fara annað að minnsta kosti og leitið og þér munuð finna, þetta er ágæt dótabúð ef maður veit ekki hvers er leitað


Monday, November 14, 2005

- : -



nýr dagur

gott mál
um helgina fór ég smástund á rex með vinkonu minni sem bað mig að koma með sér þangað
þar sá ég quentin tarantino
systir mín segir að maðurinn sé í guðatölu á íslandi og það leit þannig út á staðnum að hann væri það
þá kom guð einn og heimsótti fólkið í reykjavík
nú svo var ég á kvöldvakt í gær
og í dag er nýr dagur
fínt mál

systir mín segir að quentin hafi ekki endurnýjað kvikmyndina en hann sé femenisti einsog arnaldur indriðason og dan brown


Friday, November 11, 2005

- margt veit ég ekki -





margt veit ég ekki, ég veit ekki hvernig á að vera mamma ef ég hugsa útí það, og þegar ég leyfi tilfinningum mínum að ráða ferðinni, einsog verið er að ráðleggja manni í nútímanum, lát hjartað ráða för, þá missi ég stundum tökin - ef ég hafði einhver tök - tilfinningar mínar eru svo sterkar og mikilfenglegar, síðan ég var lítil, síðan ég fæddist, hafa tilfinningar mínar verið stærri en ég sjálf, þær ná utan um mig, en inní mér er líka ein lítil mús sem heldur að enginn ætli að gefa henni að borða, enginn ætli að elska hana, enginn ætli að sinna henni, og þessi mús verður ofsafengin þegar hún fær hugboð um eitthvað svoleiðis, ég sjálf sinni þessari mús ágætlega, en ekki alltaf heimurinn, hún vill sjást en hún er svo lítil, að fólk sér hana ekki, kannski, enginn skal segja mér að ég verði að pakka tilfinningunum saman, þrýsta þeim niður, troða þeim ofan í holu, enginn, enginn, enginn, og systir mín er sammála mér, tilfinningarnar ná utan um mig og verja mig líka um leið og þær gefa mér allt sem er þess virði að lifa fyrir, líka það að vera mamma - sem er eitt furðulegasta og margbrotnasta hlutverk sem sögur fara af - ó ó - ég tala í hringi og það er dásamlega skemmtilegt -











Tuesday, November 08, 2005

- p.s. -



kannski betra að kalla félagið svefndrottningarnar eða sofandi drottningar ef þetta heldur svona áfram, ég skil ekki:
hver á táfýluna undir borðinu þarsem ég sit?

er þetta táfýla systur minnar eða einhvers sem hingað kemur aldrei inn?

systir mín er þó táfýlulausasta manneskja íslands svo hver á hana þá?

hver á þessa táfýlu? lýst er eftir táfýlueiganda táfýlunnar undir skrifborðinu mínu.















- tilkynning -




lýst er eftir meðlimunum í hinum sofandalega félagsskap sem aldrei heldur fundi, riddaralegu drottningunum, athugið, ef áhugi er á að endurvekja félag sem aldrei fór í gang en dreymt var um að setja á stofn áður en búið var að klippa laufin af trjánum etc hafið samband










- lykill -




ég var á morgunvakt í dag og hringdi í systur mína klukkan tíu í morgun, röddin hennar ansi syfjuleg, en hún vildi ekki meina að hún væri nývöknuð, erindi mitt var að spyrja hana útí tígul drottninguna í tarot spilum, en hún sagðist ekkert vita um tarot, hún lýgur því einsog hún er löng til, hún sagðist ekki eiga tarot, hafa átt tarot, hafa gefið þau, svo töluðum við eitthvað, ég reyndi aftur að fá hana tilað lýsa fyrir mér tíguldrottningunni í tarot, hún sagði hún væri bara góð, fín drottning, ekkert útá hana að setja, hún vissi ekkert um tarot, þá spurði ég hana hverjum hún hefði gefið spilin, hún sagði nafn vinkonu sinnar, ég sagði að ég vildi að hún hefði gefið mér þau, hún sagðist líka hafa viljað það, ég veit ekki hvort hún meinti neitt með því, svo spurði ég hana enn aftur um tíguldrottninguna, hún sagði hún væri góð, einsog allar drottningarnar, svo sagðist hún vera í miðjunni á einhverju sem hún væri að gera, og við kvöddumst, núna veit ég fyrir víst að hjá henni eru pípulagningamaður og lærlingur hans, sá er gamall bekkjabróðir hennar, þeir gera við vaskinn í eldhúsinu, vaskinn inná baði, og komið hefur í ljós að þvottavélin þeirra er mikið biluð, ég vildi að systir mín gæfi mér lykilinn að lífsráðgátunni, ég veit að hún á hann ekki, en ég veit að hún er manneskja tilað finna hann og rétta mér hann, einhvern morguninn


ég elska svona veður einsog er núna, hlýtt, rigningin búin, dálítil birta í skýjunum, stillt og bráðum kemur kvöld




Monday, November 07, 2005

- svefn -





Líf í hjúkrunarfræðibúning er ekki ósvipað lífi balletdansara því agi og sjálfsagi eru frumskilyrði starfsins, það er ekki hægt að vera hálf sofandi á vakt. Systir mín segir að ég sé heppin með það hvað ég sé kvöldsvæf, einsog mamma okkar er, og systir mín varð seinna, en hún var ekki kvöldsvæf sem barn, einsog ég, því ef ég væri ekki kvöldsvæf myndi ég oftar en ekki mæta ósofin á vakt og það leyfist ekki hjúkrunarfólki og balletdönsurum. Veikindi boða ekki komu sína fyrirfram einsog margir gestir gera. Ég efast nú um að kennarar geti verið hálf sofandi í vinnunni, eða voru annars syfjulegustu kennararnir alltaf vinsælustu og bestu kennararnir í skólunum þegar ég var lítil? Jú, ég held það. Það hangir svefn yfir mörgum fræðigreinum og pabbi minn var vanur að ráðleggja mér að leggja mig á bókasöfnum. Gjaldkerar í bönkum mega vel vera hálf sofandi og slappir því yfir þeim hangir myndavél sem recordar hugsanleg mistök og ekki eru það mistök uppá líf og dauða sem gjaldkeri í banka gerir? Leigubílstjórar mega helst ekki vera ósofnir, að sofna við stýrið getur hætt lífi og limum annarra í hættu. Kokkar gætu eitrað matinn. Nei, auðvitað hugsar maður um svefn á mánudegi þó mánudagar séu ekkert endilega mánudagar í lífi hjúkku, því við vinnum á öllum dögum, allir dagar heita sama nafni í augum sjúkdómanna. Guð gaf þeim þó ekki frí á sunnudögum, hvíldardaginn mikla, eða laugardögum einsog sumir taka, og oftar en ekki er mikið að gera þá, hjá okkur. Það er nefnilega oft þegar fólk fer að slappa af að þá gerist hvellurinn. Að maður tali nú ekki um örtröðina sem oft myndast á Slysó á sunnudagsmorgnum, biðjiði fyrir ykkur. Systir mín er með bilaða þvottavél eða bilað vatnsrennsli og henti þvottinum í okkur í fyrradag. Ég hengdi uppúr vélinni í morgun áður en ég fór á vakt m.a. föt úr húsinu hennar. Hún á nú sæmilegustu föt greyið þó ég mundi aldrei klæða mig svona einsog hún gerir. Eldri dóttir mín er nýbúin að láta plokka á sér augun og fara í augnlitun, það er mjög flott, og yngri dóttir mín var fögur einsog prinsessa í Þúsund og ein nótt þegar ég horfði á hana í gær. Systir mín sagði að ég væri svo sæt í gær að það munaði mjóu hún reyndi við mig. Hún var þá líka ekki alveg með raunveruleikatengsl, búin að sjá 13 þætti af einhverji lesbíuframhaldsseríu frá Bandaríkjunum. Það eru nú allir meira og minna gay þar. En kannski ekki allir þó en það liggur við. Ég hef skemmt mér vel á síðustu vikum og ég hef náð góðu jafnvægi í öllu sem ég sinni, starfinu, heimilinu, stúlkunum, frítímanum, draumunum, en það tekur á hvað ég þarf að spara mikið en systir mín segir að hún þekki enga með jafnmikla og fína hæfileika í peningamálum og ég, hún segir að það fylgi nafninu, sem ég gef ekki upp, ef ég gef það upp og margir læsu síðuna, sem fáir gera, mundi fólk flýta sér að skíra dætur sínar þessu nafni, nema hvað, að er kannski mörgum alveg sama hvort dætrum þeirra farnist vel í fjármálunum sínum? Ég veit það ekki, en systir mín segir það, að fólki sé alveg sama, að fólk skíri t.d. dætur sínar nískulegum og væmnum nöfnum einsog Ósk, Ögn, Dögg, Von, Nögl, Hörn, Sína, Ína, Eir, Æsa, Sísí, Rán, Rún, Sóla, Bíbí, og spara prentsvertuna í símaskránum og blekið í pennunum þeirra, en ég held þó að mörg þessara nafna sem hún tönnlast á færi einmitt mikla og óþrjótandi gæfu. En þá segir systir mín: hvaða gæfu er verið að tala um? Hún sem er kristin trúa er eitthvað svartsýn þessa dagana einsog mamma okkar líka, allt í lagi þá, hún um það, þær um það. Systir, ef þú lest þennan pistil þá mundu eftir að ná í þvottinn heima hjá mér því þar hangir hann ekki til eilífðar -

p.s. rithöfundar sækja sér efnivið í svefnskógana en systir mín hefur sagt mér að best sé að vera glaðvakandi þegar starfað er að skáldskap - starfað að skáldskap, hvernig er hægt að starfa að skáldskap, skáldskapurinn er ekki vinna, finnst mér, og ég veit ekki hvort það sé alveg rétt hjá henni þetta með að geta heldur ekki verið syfjaður við skrifborð skáldsins, æj, ég nenni ekki að ræða þetta