ég er að fara með bílinn í skoðun, í gær hringdi ég kl. 3 í mömmu, við töluðum eitthvað saman, kom í ljós mörgum tímum síðar kl. 8 að við höfðum verið staddar báðar í smáranum, í sitthvorri búðinni, hlið við hlið, svona erum við jafnan nálægt hvert öðru alltaf í verslunarmiðstöðum án þess að vita af því, ég er komin með nýjan síma, hátalarinn var bilaður í hinum, enda get ég ekki verið með bilaðan síma útaf andlegu platónsku ástarævintýrunum (1) sem ég á í vændum á næsta ári, sá fyrrverandi bóndi minn keypti fyrir mig símann en ég borga honum mánaðarlega fyrir, eldri dóttir mín er forkunnar dugleg stúlka, hún vinnur í tveimur vinnum plúss að vera í skóla, ég er stolt af henni, og líka yngri dóttur minni sem er svo mikill ljúflingur, yngst og best, einsog mamma segir því hún er yngst sinna systkina, svo eru þær báðar bestar dæturnar mínar, ég er komin í gott jólastuð, ég elska að fara í búðir, bróðir minn kallaði systur okkar kellingu í gær, ég efast um að hún gleymi því fljótt, þó hún þykist vera kristni trúa og halda fyrirgefninguna sem hið besta manifesto leynist í henni lúmskur fjandi langrækninnar, aumingja hún, aumingja hinir sem að kalla systur mína kellingu, því þegar það gerðist eitt sinn að hún gekk útúr bíl (rústrauðum saab 99)á bílastæði fyrir framan sjoppu í mosfellsbæ á sólskinsdegi í ágústmánuði, nýkomin úr fjallgöngutúr uppá esjuna með ástkonu sinni og þeirra vinkonu sem alin var upp í eastgermany, var hún klædd í skyrtu með bindi - þannig fer maður í göngutúr uppá esju, einnig í fjallgönguskóm - og var að reykja vindil, þá voru þarna strákar í bíl, strákar úr mosó, einn sagði: "sjáiði strákar, þarna fer kelling með vindil og bindi,*" - auðvitað heyrði systir mín að í setningunni var stórkostlegt innrím og kannski var það þess vegna sem hún varð æfa reið, hún vildi ekki vera kveikjan að og efniviður stórkostlegs innríms, systir mín snarstoppaði, púaði frá sér vindlareyk, haltraði að bílnum, fór að rífast einsog hundur og köttur, greip um ís stráksa, sá var að borða ís í brauðformi, þegar strákurinn var kominn uppúr bílnum og grýtti ísnum hans í stéttinna,** loftið var eldfimt á bílaplaninu svo ummunaði að yrðu handalögmál en af tillitsemi að stríðsaðilinn hinn var kelling stilltu piltarnir sig, eða einn í hópnum sko dró ís lausa strákinn aftur inní bílinn, svona fór það, ísinn í stéttina, systir mín sagði við bróður okkar í gærkvöldi: "þú ert bróðir minn, þú kallar ekki systur þína kellingu", en ég held kannski hún láti þessa fallegu órímuðu setningu nægja, hún sagði hana svo einlægt og fallega, ástúðlega, hjartnæmlega, gefandi bróður okkar sjens á að breyta virðingarlausa munnsöfnuðinum - en ég spyr: hvað felst á bakvið munnsöfnuðinn, hvers vegna kallar bróðir minn systur okkar kellingu?
*look at this guys, here comes a lady with a cigar and a tie
**þá sagði strákurinn með sorgartóni, pínupons vælu-: konan eyðilagði ísinn minn
ath. mundi kelling sem er kristni trúar og trúir á fyrirgefninguna sem sitt helsta manifesto bregðast svona við á bílastæði fyrir framan sjoppu? svari hver fyrir sig
(1) á næsta ári hef ég ákveðið að helga mig platónskri ást eða þangað til ég hef ferðast til afríku, ég get ekki látið tilfinningarnar stöðva mig, og ég vil ekki fá karlmann inná heimilið, ég tek því rólega og læt aðra um að halda amori við á næstu mánuðum, ég hef líka áhuga á að upphefja ástina á hærra plan, og kynnast karlmönnum sem vinum, sem tigna saman vináttuna fremur en að fagna erosi á jafn væminn hátt og tíðkast, í bili það er að segja, þarað auki sem mér finnst þetta allt saman ofur dónalegt og hræðilega hallærislegt, svona ástarsambönd, nú á tímum, þegar fuglaflensan er í startholunum og ástandið í heiminum er einsog það nú er vægast sagt
p.s. systir mín var að segja mér að sýfilis væri komin aftur í umferð alla vega í bretlandi
sýfilis er hjartnæmur sjúkdómur
No comments:
Post a Comment