Wednesday, January 25, 2006


Nú verðum við að fara að hugsa um og skoða vel hvað er að gerast í landinu okkar afþví margt gerist aðeins einu sinni, einsog t.d. líf okkar, við lifum því einu sinni, það gerist aðeins einu sinni. Af þeim sökum verðum við að horfa vel í kringum okkur og hlusta vel eftir og sjá, hvað er að gerast, hvað er að gerast um okkur, hvað er að verða um okkur, fyrir hvað og hvern við lifum. Er það fyrir ríkisstjórnina. Er það fyrir stundargaman, sem er gaman. Er það fyrir okkur sjálf. Er það fyrir einhverja þróun. Langar okkur að breyta einhverju. Erum við stökk. Er eitthvað verið að gera við okkur handan við tjöldin. Hvað er ráðafólk að pæla. Á hvað stefnir það. Fyrir hvern hugsar það. Hverjir eru að græða á tímanum. Hverjir eru að verða útundan. Á hvað er hraunað. Í gærkvöldi sat ég stutta stund fyrir framan bókahillu foreldra minna og sá þar margt sem gerði mig spennta í fingrunum, og langaði tilað lesa. Bækurnar höfðu verið þarna alla tíð, margar frá því ég fyrst man eftir mér. Ég sá sem var: þetta er gott safn bóka, og mér fannst þetta safn bóka vera miklu betra en safnið mitt, og ég harmaði það að svona söfn sjást ekki lengur á mörgum stöðum og m.a. heima hjá mér. Þó þau foreldrar mínir hefðu ekki atvinnu af bókum, þá keyptu þau bækur, líka bækur sem voru utan við áhugasvið þeirra beint. Söfnuðu uppí þennan bókararf sem kannski er umþaðbil einhver arfur úr hinni og þessari áttinni næst okkur á vesturlöndum. Foreldrar mínir fæddust í heimstyrjöldinni síðari, þau muna eftir loftvarnarbyrgjunum í Reykjavík, þau voru ung á sjötta og sjöunda áratugnum, á tíma sem varð algjört boom í lestri, kannski ákveðið viðnám við nasistunum sem kveiktu í bókum, ákveðinn upphafstími tilað byrja uppá nýtt í öllu, og hugsa hlutina uppá nýtt og passa að sagan endurtæki sig ekki. Ég vildi ég gæti útskýrt þetta betur. Þarna við bókahilluna þeirra tók ég fram bók Nordals Grieg Fána Noregs, sem fjallar um hernám Þjóðverja á Noreg í síðara stríðinu og hvernig það gerðist á hálfum degi að landið féll í hendur þýska hermanna, á einum morgni, á meðan höfundur og kærasta hans voru að ræða við leikhússtjóra eins leikhússins í Osló um væntanlegar sumaruppfærslu, og seinna meir kvikmynd sem átti að gera, og líklega varð aldrei úr. Á svona morgni, einsog við eigum öll, erum að tala um framtíðarplönin við þá sem hafa áhuga á framtíðarplönum okkar, en þá umræðu er vel hægt að stöðva á einum klukkutíma af utanaðkomandi öflum mannlegum. Á föstudagskvöldið klukkan hálf tíu gekk ég Laugaveginn uppeftir, framhjá Skífunni mætti mér hópur 5, 6 karlmanna, sirka 20 ára, þeir ruddust framfyrir mig, með stórum og styrktum hreyfingum, og otuðu handleggnum uppí loft, tveir þeirra sögðu Sieg Heil. Ég held það hafi ekki átt að vera brandari og ef það var brandari þá var hann ekki neitt fyndinn. Líkamarnir ógnuðu mér með nærverunni, ruddust nærri mér, uppað mér, auglýstu styrk, bardagaþrek, agressíón, tilbúnir tilað vera ófyrirsjáanlegir og meira en ókurteisir, ofbeldið blikkaði utan af þeim. Í nótt dreymdi mig alla sem ég þekki, eða næstum, allir svona nánustu vinir og vandamenn, við vorum öll með tattúu á úlnliðnum, sem búið var til með því að skera hnífsoddi inní holdið, og merkja okkur með rómversku tölustöfunum i, ii, iii, iv, v, vi, vii, viii, ix, x, í armbandshring í kringum annan úlnliðinn, og þarna stóðum við í beinni röð fyrir framan fólkið sem skar tölustafina inní hold okkar, stóðum þar bljúg, auðmjúk, prúð og stillt, og reyttum sum af okkur brandarana, óhrædd að mestu. Það á örugglega við manneskjuna að hún mætir örlögum sínum bein í baki og stolt, líka þeim örlögum sem annað og valdafíkið valdasníkið fólk skapar okkar.




No comments: