Friday, August 19, 2005

heima er líka best



Ég er komin heim í heiðadalinn. Hér er svalt og gott og rúmið mitt var orðið einmana. Kisan okkar hún Dimma beið okkar á kisuhótelinu, svo hún er líka búin að vera í fríi. Við komum öll um miðnætti fyrrakvölds og tengdaforeldrar bróður míns, pabbi minn, systir mín og kærasta, þær voru með ullarhúfur á hausnum, komu og sóttu okkur útá Leifstöð, því við þurftum þrjá bíla í bæinn. Sætu frænkurnar okkar eru brúnastar, þær synda líka í sjónum einsog álar. Önnur náði myndskoti af mér úti á valhoppinu án þess ég fattaði það, þær kitla hjartað mitt þessar stelpur. Bróðir minn er brúnn þrátt fyrir að hafa lítið sólað sig, mest var hann á labbi með syni sínum, að kanna kaffihúsin, ræða málin, milli þess sem þeir heilsuðu uppá okkur hinar á ströndinni - yngri dóttur mína sem sá sætan strák í hverjum strák, þó engan jafn sætan og pabba hennar, segir hún, eldri dóttur mína yfirvegaði og heimspekilegi ferðalangurinn minn, mágkonu mína yfirvegaða og íhugula með einbeitta athyglisgáfu og húmor, og mig, hvað á ég að segja um mig? Inní mér er svo miklu meira fjör en ég hafði áttað mig á, svo mikil orka sem er full af hugsjónum og mér ókunnugum afkimum og vösum. Svona vorum við nú í þessu skemmtilegasta ferðalagi sem ég hef farið í. Systir mín segir að ég sé ofsalega sæt, brún og falleg, hún hafi aldrei séð annað eins, og ég sé svoldið lík Agnetu í Abba, útaf hvíta hárinu og sólbrúnkunni. Systir mín miðar flest við gimsteina fortíðarinnar. Kannski vegna fortíðarhyggju og eftirsjár eftir horfnum tíma, hvað veit ég, nema að hún virðist vera að standa dálítið í stað, og fylgjast lítið með nútímanum. En það er hennar mál. Gott að koma heim, gott að fara í ferðalag, heima er líka best, og kannski ég skelli mér í sundlaugina, systir mín segist vera byrjuð, syndi annan hvern dag tilað byrja með. Já og meðan ég man, örvæntingarfullir atburðir hafa átt sér stað í stjórnmálum á meðan við vorum í burtu, R-listinn dauður, framdi sjálfsmorð, sem byrjaði á að minnsti flokkurinn í samsteypunni reif af listanum handlegginn, síðan kom næsti og reif af honum hausinn. Fyrir 12 árum sneru þessir sömu flokkar bökum saman tilað koma íhaldinu frá völdum, nú í ár og á því næsta hafa þeir ákveðið að færa íhaldinu aftur völdin sín, skila völdunum tilbaka, kannski komnir með samviskubit á yfirgangi og hroka, og valdsleiða og þreytu, líklega, þetta eru litlir flokkar sem funkera betur útí horni og sem einbeitt gagnrýnisrödd á valdshafa, og ég skil þá vel, það er erfitt að stjórna og einmanalegt. En er hægt að taka mark á þeim e 12 ár, árið 2017, þegar þeir leggja saman aftur í púkk, og vilja steypa íhaldinu af stólnum. Þessi gjörningur VG lýsir af ábyrgðarleysi. Þegar lítill hópur fólks eyðileggur fyrir þrjátíuþúsundum kjósendum R-listans, einsog einhver sagði í einhverju blaði fyrir nokkrum dögum. En svo má líka velta því fyrir sér hvort það sé nokkuð sniðugt að reka svona stóra flokka, hvort lýðveldið eigi ekki að samanstanda af mörgum öllum litlum flokkum. Svo kjósendur þyrftu virkilega að hafa fyrir því að þekkja muninn á þeim, stefnuskrár þeirra og hugsjónir. Nei, stórir flokkar og breiðfylkingar eru ekki til góðs, og hafa oft sannað einmitt það. Já, ég er bara fegin.



No comments: