þegar nýr snjór fellur af himnum um nótt virðast hundaeigendur daginn eftir líta á snjóinn sem sjálfvirkan hundakúkahreinsibúnað og nota tækifærið til að viðra skepnurnar án þess að geyma á sér plastpoka til að hirða upp eftir litlu dýrin. þessu hef ég tekið eftir. og núna áðan var leiðin mín útötuð í grænum hundakúk.
annað mál í frosthörkum: margir bílaeigendur lenda í því að geta ekki lokað bílhurðinni þegar þeir hafa opnað hana fyrr en bíllinn er orðinn sæmilega vel heitur að innan. þetta held ég sé algengara vandamál en félag íslenskra bifreiðaeigenda geri sér grein fyrir.
annað mál: ég kvíði svo dauðanum. en það er bót í máli að ég kvíði dauðanum meir en ég kvíði lífinu og það er framför frá því í fyrra þegar ég kveið hverju lífsins skrefi ógurlega svo ég komst varla á lappir, ég sem hef alltaf verið svo dugleg og kná.
mér kitlar í málbeininu. ég veit ekki hvort það er afþví mig langi svona mikið að tala við einhvern eða kyssa eða blanda þessu saman, með einhverjum ágætis náunga sem gaman væri að hitta, kannski á veitingastað, og fylgja honum heim og leggjast fyrir saman og mala og mala, kyssa smá.
nei nei. hver veit. bestu hundaeigendur reykjavíkurborgar, í guðanna bænum lítið eigi á snjóinn sem ykkar átómatíska klósettpappír fyrir hundakúk sem skolast af sjálfu sér útí sjóinn þegar byrjar að rigna. við erum gangandi vegfarendur, klædd erum við í góða skó, úr rússkinni, leðri, gúmmí, striga, sum okkar meira að segja klædd í nýjum skóm sem við fengum í jólagjöf frá góðum manni eða konu. jafnvel þótt við borguðum sjálf fyrir skóna þá breytir það því ekki að þeir eru góðir og vilja ekki útatast í úrgangi gæludýra ykkar. plís. útatið ekki hina heilögu mjöll. bless í bili.
ein fyrrverandi frú
Wednesday, January 10, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment