Saturday, January 20, 2007

kona vill leysa sin vandræði með soma og skipulega

kona giftist til að skilja - en hvernig byrjar kona á því að nota eiturlyf ef enginn staður er til fyrir hana að leysa sig úr viðjum þeirra (það er að segja ef hún ánetjast þeim svo illilega að hún lætur eitrið stjórna sér en stjórnar ekki eitrinu, einsog amma mín sagði að konu bæri að gera, að stjórna eitrinu, láta ekki eitrið stjórna sér halelúja), og hvað gera húsmæður þá? aðeins hægt að díla við kristniboða eða fólk sem heldur að konu áróðri um trú til að leysa sig úr vist fíknarinnar ef svo vill til hún kýs að skipta um vist - slíta ástarsambandinu við áfengið og önnur hjálpaefni, þetta hef ég hugsað undanfarið vegna málefna byrgisins

ef kona giftist vill hún geta skilið og gengið að því á skipulegan máta hjá sýsluembættinu

ef hún flækir líf sitt vil hún geta afflækt það með sóma og á skipulegan hátt

ef hún lendir í óreglu vill hún geta komið sér úr óreglu hnarreist og stolt og skipulega

ef kona er misnotuð vill hún geta sótt málið og gengið að vísri lögfræðiaðstoð og að sálfræðingum og læknum sem sérhæfa sig í áföllum

kona er dýrmæt verðmæti

í morgun heyrði ég stjórnmálamann segja í útvarpi að á byrginu hefði dvalið fólk sem væri búið að fara í óteljandi meðferðir og ekkert hefði gagnast, alltaf færi það aftur í efnin sín, og þegar svo væri komið væru enginn önnur úrræði, fólk væri sent á staði einsog byrgið - enginn önnur úrræði - hvers konar orðalag en kona spyr:

er ekki allt í lagi að fara óteljandi oft sinnum í meðferð? er það okkar að dæma hversu oft eða sjaldan er hægt að fara í meðferð? ég segi:

mér þykir ekkert að því þótt fólk eyði ævi sinni í það að fara í meðferð á milli þess sem það drekkur áfengi í óhófi

á hverjum degi kemur sólin upp og á hverjum degi hnígur hún til viðar

jarðvist okkar er endurtekningum háð

við sjáum trén fella lauf á hverju hausti og fela sig í laufum á hverju vori, jafn oft má fólk fara í meðferð og trén fella laufin og jafn oft má fólk detta í það aftur og laufin birtast aftur á trjánum og oftar, jafn oft og rigningin

fólk hefur leyfi til að haga lífi sínu einsog það vill og langar og kýs (er það ekki by the way það sem frjálshyggjan boðar?) það er sagt að einhver lítil pínulítil prósenta af fólki misnoti áfengi og eiturlyf og ef því langar að hætta að misnota bakkusarveigar þá eiga dyrnar þangað, í vímulaust líf, að standa því opnar, dyr sem ekki þarf að skríða innum eða skammast sín fyrir að fara í gegnum, eða falla á hné og þrábiðja um að fá að fara í gegnum þessar dyr, það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að breyta lífi sínu - hvort sem það er að fara í meðferð með stolti og reisn eða fara á drykkjutúr með álíka stolti og reisn

No comments: