Líf í hjúkrunarfræðibúning er ekki ósvipað lífi balletdansara því agi og sjálfsagi eru frumskilyrði starfsins, það er ekki hægt að vera hálf sofandi á vakt. Systir mín segir að ég sé heppin með það hvað ég sé kvöldsvæf, einsog mamma okkar er, og systir mín varð seinna, en hún var ekki kvöldsvæf sem barn, einsog ég, því ef ég væri ekki kvöldsvæf myndi ég oftar en ekki mæta ósofin á vakt og það leyfist ekki hjúkrunarfólki og balletdönsurum. Veikindi boða ekki komu sína fyrirfram einsog margir gestir gera. Ég efast nú um að kennarar geti verið hálf sofandi í vinnunni, eða voru annars syfjulegustu kennararnir alltaf vinsælustu og bestu kennararnir í skólunum þegar ég var lítil? Jú, ég held það. Það hangir svefn yfir mörgum fræðigreinum og pabbi minn var vanur að ráðleggja mér að leggja mig á bókasöfnum. Gjaldkerar í bönkum mega vel vera hálf sofandi og slappir því yfir þeim hangir myndavél sem recordar hugsanleg mistök og ekki eru það mistök uppá líf og dauða sem gjaldkeri í banka gerir? Leigubílstjórar mega helst ekki vera ósofnir, að sofna við stýrið getur hætt lífi og limum annarra í hættu. Kokkar gætu eitrað matinn. Nei, auðvitað hugsar maður um svefn á mánudegi þó mánudagar séu ekkert endilega mánudagar í lífi hjúkku, því við vinnum á öllum dögum, allir dagar heita sama nafni í augum sjúkdómanna. Guð gaf þeim þó ekki frí á sunnudögum, hvíldardaginn mikla, eða laugardögum einsog sumir taka, og oftar en ekki er mikið að gera þá, hjá okkur. Það er nefnilega oft þegar fólk fer að slappa af að þá gerist hvellurinn. Að maður tali nú ekki um örtröðina sem oft myndast á Slysó á sunnudagsmorgnum, biðjiði fyrir ykkur. Systir mín er með bilaða þvottavél eða bilað vatnsrennsli og henti þvottinum í okkur í fyrradag. Ég hengdi uppúr vélinni í morgun áður en ég fór á vakt m.a. föt úr húsinu hennar. Hún á nú sæmilegustu föt greyið þó ég mundi aldrei klæða mig svona einsog hún gerir. Eldri dóttir mín er nýbúin að láta plokka á sér augun og fara í augnlitun, það er mjög flott, og yngri dóttir mín var fögur einsog prinsessa í Þúsund og ein nótt þegar ég horfði á hana í gær. Systir mín sagði að ég væri svo sæt í gær að það munaði mjóu hún reyndi við mig. Hún var þá líka ekki alveg með raunveruleikatengsl, búin að sjá 13 þætti af einhverji lesbíuframhaldsseríu frá Bandaríkjunum. Það eru nú allir meira og minna gay þar. En kannski ekki allir þó en það liggur við. Ég hef skemmt mér vel á síðustu vikum og ég hef náð góðu jafnvægi í öllu sem ég sinni, starfinu, heimilinu, stúlkunum, frítímanum, draumunum, en það tekur á hvað ég þarf að spara mikið en systir mín segir að hún þekki enga með jafnmikla og fína hæfileika í peningamálum og ég, hún segir að það fylgi nafninu, sem ég gef ekki upp, ef ég gef það upp og margir læsu síðuna, sem fáir gera, mundi fólk flýta sér að skíra dætur sínar þessu nafni, nema hvað, að er kannski mörgum alveg sama hvort dætrum þeirra farnist vel í fjármálunum sínum? Ég veit það ekki, en systir mín segir það, að fólki sé alveg sama, að fólk skíri t.d. dætur sínar nískulegum og væmnum nöfnum einsog Ósk, Ögn, Dögg, Von, Nögl, Hörn, Sína, Ína, Eir, Æsa, Sísí, Rán, Rún, Sóla, Bíbí, og spara prentsvertuna í símaskránum og blekið í pennunum þeirra, en ég held þó að mörg þessara nafna sem hún tönnlast á færi einmitt mikla og óþrjótandi gæfu. En þá segir systir mín: hvaða gæfu er verið að tala um? Hún sem er kristin trúa er eitthvað svartsýn þessa dagana einsog mamma okkar líka, allt í lagi þá, hún um það, þær um það. Systir, ef þú lest þennan pistil þá mundu eftir að ná í þvottinn heima hjá mér því þar hangir hann ekki til eilífðar -
p.s. rithöfundar sækja sér efnivið í svefnskógana en systir mín hefur sagt mér að best sé að vera glaðvakandi þegar starfað er að skáldskap - starfað að skáldskap, hvernig er hægt að starfa að skáldskap, skáldskapurinn er ekki vinna, finnst mér, og ég veit ekki hvort það sé alveg rétt hjá henni þetta með að geta heldur ekki verið syfjaður við skrifborð skáldsins, æj, ég nenni ekki að ræða þetta